Verum snjöll!
Hverjum er fræðslan ætluð?
Fræðslan er ætluð nemendum í grunnskóla. Fræðslan er sérsniðin að aldri nemenda og er því í boði fyrir alla bekki grunnskólans.
Hvernig fer fræðslan fram?
Fyrirlesari kemur á staðinn og fræðir börnin.
Lýsing:
Í fræðslunni er lögð rík áhersla á netöryggi og hvar og hvernig börn geta fengið hjálp ef þau lenda í óhugnanlegum aðstæðum á netinu. Í fræðslunni er farið yfir samskipti og vináttu á netinu, rætt um neteinelti, stafrænt fótspor og myndbirtingar. Rætt er um tækjanotkun og markmiðasetningu til að vera við stjórn og stuðla að vellíðan. Einnig er farið í miðlalæsi, falsfréttir og glansmyndir samfélagsmiðla skoðaðar.
Fræðslunni er skipt upp í eftirfarandi kafla:
Netöryggi: Rætt er um vináttu á netinu og hvað þarf að hafa í huga þegar vinátta hefst í gegnum miðla. Farið er yfir hverju má og hverju má ekki deila á netinu. Hverju má deila með vinum? Rætt er um hvernig börn geta sótt sér hjálp í óhugnanlegum aðstæðum sem koma upp á netinu eða sjá óæskilegar myndir.
Notkun og samskipti: Farið er yfir neteinelti og mikilvægi þess að tilkynna slíkt. Rætt er um jákvæð samskipti og börnunum gefnar hugmyndir að jákvæðri notkun. Einnig er rætt um stafrænt fótspor og myndbirtingar.
Líðan og læsi: Farið er yfir líðan við miðlanotkun, rætt um falsfréttir og glansmynd samfélagsmiðla. Rætt um kosti þess að taka sér hvíld frá tækjum og taka stjórn á eigin notkun. Einnig er farið yfir hvernig aldurstakmörk virka og af hverju þau eru sett.
Fræðslan er lifandi samtal við nemendur og geta þeir spurt spurninga og komið með vangaveltur á meðan á fræðslunni stendur.
Tímalengd: 40 mínútur.
Markmið: Markmið fræðslunnar er að efla gagnrýna hugsun barna og jafnvægi í lífinu, hvetja þau til að fara varlega á netinu, vera í jákvæðum samskiptum og kynna þeim leiðir til að sækja sér hjálp ef þau lenda í óhugnanlegum aðstæðum.
Bókaðu fræðsluna á heimiliogskoli@heimiliogskoli.is