Hvað er Farsældarsáttmálinn og til hvers er hann?


Farsældarsáttmálinn er verkfæri sem byggir á því að foreldrar koma sér saman um ákveðin viðmið eða gildi sem þeir telja mikilvæg til þess að styðja við vöxt og þroska allra barna í nærsamfélaginu. Hópurinn sameinast um viðmiðin í sáttmálanum og myndar þannig þorp utan um börnin. Farsældarsáttmálinn gefur foreldrum tækifæri til þess að forma samstarf sín á milli, styrkja foreldrastarfið og hlutverk foreldra sem lykilaðila í að skapa farsælt samfélag. Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps auk þess sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við og stuðla að góðri menningu innan barnahópsins. Þá er ómetanlegur stuðningur fyrir foreldra að hafa breitt tengslanet í öðrum foreldrum í nærsamfélaginu, þeir taka upplýstari ákvarðanir og geta verið öflug rödd umbóta. Þannig geta þeir unnið gegn einelti og fordómum og stuðlað að auknum skilningi og umburðalyndi milli fjölbreyttra hópa.

Hvernig varð Farsældarsáttmálinn til?

Uppruna Farsældarsáttmálans má rekja til viðamikils samtals Heimilis og skóla við grasrót foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að starfi með börnum og ungmennum þar sem fram kom ákall um endurvakningu foreldrastarfs og valdeflingu foreldra.

Heimili og skóli gekk til samstarfs við mennta- og barnamálaráðuneytið en gerður var viðamikill samningur um endurreisn foreldrastarfs um land allt í þágu farsældar barna en þar leika foreldrar lykilhlutverk. Ákveðið var að leggja í vinnu við gerð Farsældarsáttmálans sem byggir á áratuga reynslu og traustum grunni til þess að virkja foreldra til samstarfs. Farsældarsáttmálinn hefur bein tengsl við innleiðingu farsældarlaganna og tengir saman þá vinnu sem nú er í gangi sem varðar farsæld barna.

Hvert er innihald Farsældarsáttmálans?

Vorið 2023 voru haldnir foreldrafundir víða um land þar sem Heimili og skóli safnaði tæplega 1.000 tillögum til að kortleggja megináherslur foreldra og annarra til að stuðla að vellíðan og farsæld allra barna. Tillögurnar voru þemagreindar og þrír stærstu flokkarnir sem foreldrum þóttu mikilvægastir voru: Bætt samskipti, viðmið í uppeldi og skjá- og netnotkun. Aðrir flokkar voru samstarf foreldra og farsæld barna. Farsældarsáttmálinn kemur óútfylltur og getur því mætt þeim sérstöku áskorunum sem steðja að hverju samfélagi fyrir sig en fjallað er sérstaklega um þessa þætti í stuðningsefni Farsældarsáttmálans.

Fyrir hvern er Farsældarsáttmálinn?

Farsældarsáttmálinn er búinn til með foreldrahópa í huga en getur verið nýttur víða í samstarfi við alla þá sem koma að degi barnsins, starfsfólk skóla, frístundar og félagsmiðstöðva, íþrottafélaga o.fl.

Hvar er hægt að nálgast Farsældarsáttmálann?

Allt efni Farsældarsáttmálans má nálgast að kostnaðarlausu á heimasíðu Heimilis og skóla. Allt prentefni fæst í þjónustumiðstöð Heimilis og skóla, Bæjarlind 2, 2.hæð. 

Einnig bjóða samtökin upp á stuðning og ráðgjöf við innleiðingu sáttmálans. Hægt er að panta vinnustofu eða fá nánari upplýsingar á heimiliogskoli@heimiliogskoli.is