Skoðanir þínar eru ekki þín einkaeign

Fyrirsögnin er boðskapur Johns Stuart Mills, hins merka heimspekings og höfundar Frelsisins, eins helsta grundvallarrits í stjórnspeki sem á ekki síður við í dag, en árið 1859, þegar það var ritað. Það er í anda Mills sem ég kýs að skrifa þennan pistil um skóla án aðgreiningar og fyrir því er góð ástæða.

”Menn læra af reynslunni og rökræðum. Reynslan er ekki einhlít. Rökræður eru óhjákvæmilegar til að leiða í ljós, hvernig túlka beri reynsluna. Rangar skoðanir og röng breytni þoka smám saman fyrir staðreyndum og rökum, en til þess að svo megi verða, þurfa staðreyndir og rök að eiga greiða leið að mannshuganum. Og mjög fáar staðreyndir liggja í augum uppi án skýringa”. (MILL)

Það var í byrjun sumars sem ég hóf að vekja athygli á þeirri vanrækslu sem börn með sérþarfir verða fyrir í íslensku skólakerfi. Vanrækslan stafar af menntastefnunni skóli án aðgreiningar, vegna þess að stefnan er ekki útfærð með réttum hætti. Fyrir vikið lenda mörg börn í því að fá ekki mikilvægum þörfum fullnægt og það kallast vanræksla. Með öðrum orðum, athafnaleysi sem flokkast undir ofbeldi. Minna sýnilegt en skaðlegt engu að síður.

Ég á eitt þessara barna og innra með mér hafði safnast upp töluverð reiði út í kerfið vegna þess úrræðaleysis sem við búum við. Ég hafði verið í góðum samskiptum við starfsfólkið í skólanum og starfsfólk skólaskrifstofu. Þessi góðu samskipti urðu ef til vill til þess að ég átti auðveldara með að sjá heildarmyndina. Ástandið var mér hvati til þess að hefja nám í lögfræði. Það var þá sem ég sá enn skýrar hvernig brotið er á réttindum þessara barna í skólakerfinu, og það var þar sem ég öðlaðist styrk og þor til þess að stíga fram.

Ég gat haldið áfram að ergja mig á ástandinu eða stigið fram og deilt minni reynslu og þekkingu

Mills var mikill talsmaður gagnrýnnar hugsunar en svo gagnrýnin hugsun geti átt sér stað, þurfa skoðanir að koma fram, og það þarf að vera hægt að rökræða þær. Þess vegna sagði Mills að skoðanir væru ekki þín einkaeign þegar þú býrð yfir ákveðinni þekkingu og reynslu.

Með mína reynslu og þekkingu taldi ég mér bæði ljúft og skylt fyrir velferð barnsins míns og annarra barna í þess stöðu að vekja athygli á vandanum frá mínu sjónarhorni. Það er óhætt að segja að viðbrögðin, bæði þau sem ég fékk en ekki síður þau sem ég fékk ekki, komu mér talsvert á óvart.

“Þú getur gleymt þessu, það mun aldrei neitt breytast í þessum málum”.

Í fyrsta lagi er sorglegt að heyra í foreldrum sem trúa því frá sínum dýpstu hjartarótum, að það muni aldrei vera hægt að laga ástandið í skólakerfinu. Foreldrar sem eru að örmagnast í lífinu, en það er stutt í örmögnun þegar þú ert að ala upp barn með sérþarfir. Það þarf að hafa allar klær úti á öllum vígstöðvum, alltaf, til þess að gæta hagsmuna barnsins. Mæta á teymisfundi, fara í læknisheimsóknir, á félagsfærninámskeið, í talþjálfun, iðjuþjálfun, til sálfræðings, sjúkraþjálfara. Jafnvel svara fyrir miður skemmtileg atvik sem barnið lendir í, taka við athugasemdum frá reiðum foreldrum í samfélaginu, símtölum úr skólanum eftir erfiðar uppákomur, rjúka upp í skóla og sækja barnið fyrir skólalok, halda því heima vegna þess að það er mannekla og svona mætti lengi telja. Ofan á þetta eru flestir foreldrar í vinnu, þurfa einnig að sinna öðrum börnum á heimilinu og að sjálfsögðu þarf að passa heimanámið – lestur, skrift og oft á tíðum að vinna upp það sem ekki náðist að gera í skólanum!

Ég hreinlega neitaði að trúa því að ástandið gæti ekki lagast á upplýsta litla Íslandi. Það yrði bara að vekja meiri athygli á vandanum, þá hlyti eitthvað að breytast. Í kjölfarið var hópurinn Sagan okkar stofnaður sem er vettvangur þar sem hægt er að segja frá sinni reynslu, nafnlaust ef fólk kýs svo. Með tilkomu hópsins komu fram alvarlegar sögur af vanrækslu í skólakerfinu og einnig slæmar upplifanir kennara sem hafa brunnið út í starfi.

Í allri baráttunni hef ég lagt ríka áherslu á að skólarnir og kennarar eru ekki vandamálið

Vandinn liggur í meingölluðu menntakerfi sem vinnur gegn velferð fjölda barna og heldur áfram að vinna gegn velferð þeirra á meðan ekkert breytist. Starfsfólk skólanna er aftur á móti oft á tíðum mjög auðvelt skotmark örmagna foreldra. Erfiðir teymisfundir eiga sér stað þar sem verið er að ræða um það dýrmætasta sem fólk á – barnið þeirra og velferð þess. Svör eins og „það er ekki til fjármagn“ eða „við höfum ekki mannskap“ eru einungis til þess fallin að auka á togstreituna og valda almennri andúð á skólakerfinu og starfsfólki þess. Foreldrar upplifa vantraust, starfsfólk fer í vörn og hætta er á misskilningi í samskiptum.

Starfsfólk skólaskrifstofu, kennarar, skólastjórnendur og annað fólk sem kemur að skólamálum þarf að taka þátt í umræðunni, deila skoðunum og huga að lausnum

Til að undirstrika kerfisgallann er því sérstaklega mikilvægt að fólk sem vinnur í þessu meingallaða kerfi, stígi fram og deili sinni reynslu og skoðun. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að umræðan hafi verið lífleg, en hún hefur verið allt annað en það. Þrátt fyrir að búa yfir sterkum skoðunum á skólakerfinu og djúpri reynslu, þá kjósa flestir að tjá sig sem minnst um þessi mál.

Áhugaleysi samfélagsins gagnvart herferðinni #Saganokkar hryggir mig. Sér í lagi í ljósi þess að fjallað er um börn í mikilli vanlíðan sem þurfa sárlega á því að halda að fólk grípi boltann og haldi honum á lofti.

Við eigum ekki einungis að kenna unga fólkinu okkar gagnrýna hugsun, við þurfum einnig að sýna gott fordæmi og stuðla að henni

Aukin áhersla á gagnrýna hugsun í menntakerfinu síðustu ár er engin tilviljun. Það kom til af biturri reynslu. Um það er fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. En gagnrýnin hugsun er ekki einungis nauðsynleg í efnahagslífinu. Hún er eins og Mills bendir réttilega á, nauðsynleg á öllum sviðum samfélagsins, ef samfélagið á að þroskast og eflast. En við getum ekki stuðlað að gagnrýnni hugsun nema skoðanir og reynsla fólks komi fram. Í þögninni situr mögulega mikilvæg þekking sem getur haft jákvæð áhrif á velferð einstaklinga og samfélagsins í heild. Aftur á móti á sama tíma og menntayfirvöld leggja áherslu á að efla gagnrýna hugsun í öllu námi þá gengur okkur illa að fá stjórnmálamenn, starfsfólk menntavísindasviðs, skólastjórnendur, kennara, starfsfólk skólaskrifstofu og aðra sem koma að skólamálum til þess að taka þátt í umræðunni. Hvers vegna?

Við verðum að taka umræðuna barnanna vegna

Eftir samtal við marga kennara og skólastjórnendur veit ég fyrir víst að fæstir eru ánægðir með ástandið eins og það er. Staðan á sjúkrasjóði kennara ber þess einnig merki að margir kennarar eru að brenna út. Foreldrar barna með sérþarfir fá að reyna það á eigin skinni hversu brotið kerfið er. Staðreyndirnar tala sínu máli og það er hægt að horfast í augu við vandann og sigrast á honum eða viðhalda honum með þöggun og afneitun.

Innsýn kennara, skólastjórnenda og starfsfólks skólaskrifstofu er jafn mikilvægur hlekkur í umræðuna og sýn foreldra. Raunar svo mikilvægur að við fáum aldrei málefnalega umræðu án þátttöku þessara aðila. Þetta er fólkið sem lifir og hrærist í skólaumhverfinu. Þetta er fólkið, sem auk foreldranna, eru mestu sérfræðingarnir í málefnum hvers barns.

Málin eru alvarleg

Ástandið er misjafnt eftir sveitarfélögum, skólum og hverju barni. Það er því ekki víst að allir geri sér grein fyrir hversu slæmri stöðu mörg börn eru í, en nokkrir foreldrar eru tilbúnir í málaferli við ríkið og sveitarfélög vegna þeirrar vanrækslu sem börnin þeirra verða fyrir. Aðkoma Öryrkjabandalags Íslands að málaferlunum undirstrikar vafalaust alvarlega stöðu þessara barna, en markmiðið er ekki að hnekkja á einstaka skólum eða sveitarfélögum, heldur sýna fram á kerfisgallann, þannig að ekki verði hjá því komist að grípa til aðgerða. Þar á meðal verður látið reyna á réttmæti stuðnings á grundvelli SIS mats, en samkvæmt því fyrirkomulagi er börnum mismunað eftir því hvað hrjáir þau og er það í andstöðu við alþjóðasamninga, lög og stjórnarskrá Íslands. 

Í gegnum árin hafa ýmsir fagaðilar stigið fram og bent á það hvernig skóli án aðgreiningar sé falleg stefna í orði en að hún sé raunverulega ekki á borði. Í kjölfar herferðarinnar #Saganokkar hafa iðjuþjálfar og félagsráðgjafar stigið fram og sagt frá því hvernig aðkoma þeirra að skólakerfinu myndi styðja við menntun margbreytileikans. En það er ekki nóg. Það þarf meira til. Við þurfum öflugri umræðu.

”Ef menn eru vissir í sinni sök, er það heigulsháttur, en ekki ábyrg afstaða að hika við að fylgja sannfæringu sinni, en leyfa kenningum að vaða uppi, sem menn telja í allri einlægni hættulegar velferð mannkynsins, í þessu lífi eða öðru“. (Mill)

Svo ekki þurfi að taka undir orð örmagna foreldra sem trúa ekki á kerfisbreytingar þá er mikilvægt fyrir okkur öll, nú sem aldrei fyrr, að standa vörð um hagsmuni barna og kennara á sama tíma og „kerfið“ svarar til saka fyrir dómstólum. Nýtum reynslu okkar og þekkingu. Deilum því hvað er að virka og hvað ekki. Tjáum okkur um það skólakerfi sem við viljum sjá. Hjálpumst að, tökum af skarið sem foreldrar og fagaðilar. Grípum umræðuna, höldum henni á lofti, nýtum fjölmiðlana og krefjumst breytinga þannig að öllum geti liðið vel í skólanum sínum.

Umfram allt – sýnum hvað skólakerfið getur raunverulega verið öflugt!

Alma Björk Ástþórsdóttir