Af hverju foreldrarölt
Árið 1998 voru Íslendingar Evrópumeistarar í unglingadrykkju. Það er ekki eitthvað sem við erum stolt af í dag en í kjölfarið varð til víðtæk samstaða foreldra, kennara og annars fagfólks sem kom að umönnun barna og þjónustu við þau sem í daglegu tali er oft nefnt íslenska módelið. Foreldraröltið spratt meðal annars upp úr þessari samstöðu og hefur verið mikilvægur partur af foreldrastarfinu í mörgum skólum síðan.
Röltið er frábært tækifæri til að virkja foreldra til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga, búa til tengslanet þeirra á milli og koma í veg fyrir hópamyndun unglinga að loknum lögbundnum útivistartíma.
Flestir unglingar fá aðhald og umhyggju heima fyrir sem þeim er nauðsynlegt og er gert að fara eftir lögbundnum útivistartíma. Það er því eðlileg spurning, hvers vegna þú átt að standa upp úr sófanum og skilja þín börn eftir heima til að fara út og fylgjast með annarra manna börnum.
Það eru margar góðar ástæður fyrir því að foreldrarölt er mikilvægt.
Góður andi í hverfinu hefur góð áhrif á öll börnin sem þar búa.
Óæskilegar hópamyndanir, einelti, ógnandi hegðun og slæm umgengni hefur áhrif á skólabraginn og alla krakkana í hverfinu.
Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman getur haft róandi og fyrirbyggjandi áhrif.
Nærvera foreldra gefur unglingunum tækifæri á að leita aðstoðar ef þörf er á.
Foreldrar sem taka þátt í foreldraröltinu geta oft bent á ýmislegt sem betur má fara í hverfinu, t.d. hvar eru sprungnar perur, hvar þarf að lappa upp á bekki eða gera við brotnar girðingar. Hvar eru augljósar hættur í umhverfinu. Þessum ábendingum má koma áleiðis til viðeigandi aðila.
Hvernig berum við okkur að á foreldrarölti?
Verum sjáanleg! Endurskinsvesti eru mikilvæg og sjálfsagt að skoða hvort bæjarfélagið styrki foreldrafélögin til að eiga slík vesti.
Gott er að vera helst ekki færri en fimm, en við röltum þó einhvern vanti.
Við erum til taks ef unglingarnir þurfa á okkur að halda. Við mætum unglingunum með hlýju og umhyggju, hlustum og leiðbeinum.
Við hringjum í lögregluna/neyðarlínuna ef upp koma árekstrar, ofbeldi, slys, vímuefnaneysla og/eða sala eða annað sem krefst afskipta.
Við látum vita að við séum hluti af foreldrarölti ef við þurfum að kalla til lögreglu.
Við höldum trúnað. Við ræðum ekki við aðra málefni einstaklinga sem við verðum vitni að á röltinu. Börn eiga rétt á því að einkalíf þeirra sé virt, líka börn í vanda!
Við tökum ekki myndir af unglingunum og birtum á samfélagsmiðlum eða sendum til fjölmiðla.
Skipulagið gengur oft best upp ef sérstakur röltstjóri sér um að halda utan um röltið í sínum skóla með aðstoð bekkjar/árgangafulltrúa.
Best er að foreldrafélögin komi sér upp hefðum þannig að allir viti hvernig fyrirkomulagið er frá ári til árs. Hugmyndir um fyrirkomulag:
Röltstjóri er skipaður sem heldur utan um planið, sér um samskipti við bekkjarfulltrúa og minnir þá á þegar kemur að bekknum/árgangnum þeirra að rölta.
Bekkjum/árgöngum er úthlutað ákveðnum dögum. Bekkjarfulltrúar eða einhverjir aðrir sem hafa verið valdir úr hópi foreldra sjá um að skipuleggja hverjir mæta fyrir hönd bekkjarins hverju sinni.
Setja hvern árgang á einn mánuð og foreldrar skipta sér niður innan þess mánaðar.
Blanda yngri og eldri árgöngum upp með því að skipta árgöngunum í tvennt. Foreldrunum?
Sumir skólar hafa keppni á milli bekkja/árganga….sá bekkur sem er með besta mætingu foreldra í röltið fær pizzaveislu fyrir foreldrana og bekkinn.
Mikilvægt að vera í sambandi við félagsmiðstöðina og skipuleggja röltið með þeim. Þau vita oft hvar og hvenær þörfin er mest.
Skólar sem eru nálægt hver öðrum geta skipulagt foreldraröltið saman.
Algengast er að rölt sé á föstudögum á tímabilinu kl. 22-24 en stundum líka á laugardögum á sama tíma. Ef skólaböll eða skemmtanir eru í félagsmiðstöð á fimmtudegi getur verið gott að skipta yfir á fimmtudag eða bæta honum við.
Frá foreldrarölti