Farsældarsáttmálinn er kominn út

Farsældarsáttmálinn er verkfæri sem gerir foreldrum og öðrum sem koma að degi barnsins kleift að ræða sín á milli og setja niður ákveðin viðmið eða gildi sem þeim finnast mikilvæg til þess að styðja við þroska og farsæld allra barna í nærsamfélaginu. 

Nú þegar hafa nokkur sveitarfélög, skólar og aðrir sem koma að degi barna unnið Farsældarsáttmála til að samræma gildi og viðmið í barnahópum.

Farsældarsáttmálinn kom út haustið 2023 eftir viðamikið samtal við foreldra og skólakerfið um land allt þar sem fram kom ákall um endurvakningu foreldrastarfs og valdeflingu foreldra.

Yfir 1.000 tillögum var safnað til þess að kortleggja megináherslur foreldra og annarra til þess að stuðla að vellíðan og farsæld allra barna en þemagreindar niðurstöður má finna í bæklingnum Umræðuefni. Þær má nota sem kveikjur til umræðna við fyrirlögn Farsældarsáttmálans.

Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps auk þess sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki að styðja við og stuðla að góðri menningu innan barnahópsins. Farsældarsáttmálinn gefur foreldrum tækifæri til þess að forma samstarf sín á milli og styrkja foreldrastarfið. 

Þið fáið allar upplýsingar um Farsældarsáttmálann á Heimasíðu Heimilis og skóla á: www.heimiliogskoli.is/farsaeldarsattmalinn

Þar eru upplýsingar um hvernig verkefnið varð til, fyrirlögn sáttmálans og verkfærakista, ásamt svörum við almennum spurningum.